Enski boltinn

Sonur Mancini neitaði að koma inn á í leik með varaliði City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Enska götublaðið The Mirror greinir frá því á vefsíðu sinni í kvöld að sonur Roberto Mancini, knattspyrnustjóra Manchester City, hafi neitað að koma inn á sem varamaður í leik varaliðs félagsins fyrir fáeinum vikum síðan.

Allt hefur verið á öðrum endanum í knattspyrnuheiminum eftir að Carlos Tevez neitaði að koma inn á sem varamaður í leik City gegn Bayern München í Meistaradeild Evrópu á miðvikdagskvöldið.

Þetta staðhæfði Mancini eftir leikinn og sagði enn fremur að Tevez myndi aldrei spila framar með liðinu undir hans stjórn. Tevez vildi hins vegar sjálfur meina að málið hafi komið til vegna misskilnings og að hann hafi ekki neitað að fara inn á.

Filippo Mancini er tvítugur sonur Roberto Mancini og er á mála hjá ítölsku neðrideildarliði. Fyrir sex vikum síðan, þann 10. ágúst, var hann á skýrslu fyrir æfingaleik varaliða City og Liverpool og var beðinn um að koma inn á sem varamaður þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Filippo neitaði, blótaði þjálfara varaliðsins í sand og ösku og fór í fússi frá vellinum eftir leikinn.

Fullyrt er í fréttinni að talsmaður Manchester City hafi staðfest að atvikið hafi átt sér stað en að Roberto Mancini hafi ekki heyrt af því fyrr en í dag.

Filippo var ekki refsað en talsmaðurinn tók skýrt fram að hann er ekki á samningi hjá Manchester City og að leikurinn við Liverpool hafi verið æfingaleikur - ekki keppnisleikur. Því hafi ekki verið hægt að refsa honum sérstaklega, þar sem hann er ekki á samningi hjá félaginu og þiggur ekki laun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×