Enski boltinn

Micah Richards fordæmir hegðun Tevez

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hér má sjá Tevez og Richards í leik með City á síðustu leiktíð.
Hér má sjá Tevez og Richards í leik með City á síðustu leiktíð. Mynd. / Getty Images
Micah Richards tjáir sig um hegðun Carlos Tevez í enskum fjölmiðlum um helgina og er hann fyrsti leikmaður Manchester City sem gerir slíkt.

Carlos Tevez hefur oftar en ekki sýnt einkennilega hegðun í herbúðum Manchester City og hefur í raun ávallt verið mjög óánægður hjá klúbbnum.

Kornið sem fyllti mælirinn var þegar leikmaðurinn neitaði að koma inná þegar City lék gegn Bayern München í Meistaradeild Evrópu í vikunni.

Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, gaf það út eftir leikinn að leikmaðurinn myndi aldrei spila fyrir liðið svo lengi sem hann sé við stjórnvölin.

„Viðbrögðin hjá Tevez í München voru röng og í raun fáránleg,“ sagði Richards.

„Þetta hefur verið töluverð spenna á milli hans og Mancini þar sem leikmaðurinn hefur ekki komist í liðið á tímabilinu, en það datt engum í hug að hann myndi bregðast svona við“.

„Mér hefur alltaf líkað vel við Carlos og líklega er hann enn besti leikmaður sem ég hef spilað með, en svona hegðun gengur ekki upp“.

„Í dag erum við klúbbur í toppbaráttu sem getur ekki snúist um einn eða tvo leikmenn, þetta er liðsíþrótt“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×