Enski boltinn

Tottenham fær Adebayor

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Adebayor í leik með Real Madrid á síðustu leiktíð.
Adebayor í leik með Real Madrid á síðustu leiktíð. Nordic Photos / Getty Images
Enska götublaðið Daily Mirror staðhæfir í dag að Tottenham hafi komist að samkomulagi við Manchester City um að fá Emmanuel Adebayor að láni frá City.

Adebayor er ekki í náðinni hjá Roberto Mancini, stjóra City, en hann þiggur í dag um 170 þúsund pund í vikulaun hjá félaginu.

Fullyrt er að Adebayor muni gangast undir læknisskoðun hjá Tottenham í dag en félagið mun hafa samþykkt að greiða meirihluta af launum hans. Sjálfur hefur Adebayor harðneitað að taka á sig launalækkun til að liðka fyrir möguleikum hans að komast að hjá öðru liði.

Adebayor var í láni hjá Real Madrid á síðari hluta síðasta tímabils en spænska félagið ákvað að kaupa hann ekki frá City.

„Stjórnarformaðurinn er að vinna í þessu máli og ég hef ekki hugmynd um hvernig það stendur,“ sagði Harry Redknapp, stjóri Tottenham, við enska fjölmiðla um málið. „En hann er góður leikmaður og mjög hæfileikaríkur. Ef við fáum hann fær hann tækifæri til að koma hingað og slá í gegn.“

Redknapp vill styrkja liðið fyrir komandi átök í ensku úrvalsdeildinni en ein skærasta stjarna liðsins, Luka Modric, hefur verið sterklega orðaður við Chelsea í sumar. Redknapp hefur ítrekað sagt að Modric verði áfram hjá Tottenham.

Þá hefur Redknapp verið sagður áhugasamur um að fá Joe Cole frá Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×