Helmingur sýnanna reyndust menguð
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hóf þriðju sýnatöku úr neysluvatni á Þingvöllum á þriðjudag, en hún var talsvert umfangsmeiri en sýnataka sem áður hafði farið fram.
Tilefni sýnatökunnar var að Holræsa- og stífluþjónusta Suðurlands, sem sér um að tæma rotþrær í að minnsta kosti 5 sveitarfélögum, losaði seyruvökva á svipuðum slóðum og sumarhús á svæðinu sækja neysluvatn sitt.
Tekin voru sýni úr sex bústöðum á þriðjudag. Helmingur þeirra reyndist innihalda gerlafjölda yfir heilsufarsmörkum, og í einu þeirra var greinileg saurgerlamengun.
Heilbrigðiseftirlitið telur þó ekki að niðurstöðurnar taki af allan vafa um uppruna mengunarinnar, og hvorki fullyrðir né útilokar að hún stafi af athæfi fyrirtækisins, en áfram verður fylgst með neysluvatni á svæðinu. Þá telur eftirlitið fulla þörf á að kanna veitumál á svæðinu, þar sem hugsanlegt sé að mengunin komi úr rotþrónum sjálfum.
Lögregla hefur haft seyrulosun fyrirtækisins til rannsóknar síðan sumarhúsaeigendur kærðu hana í síðustu viku. Rannsókn málsins mun vera langt komin, en í samtali við fréttastofu segir Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, að ákvörðun um ákæru eða aðrar refsingar verði tekin á mánudag.
Tengdar fréttir

Neysluvatni stefnt í hættu
Grunur leikur á að seyruvökvi úr rotþróm hafi verið látinn leka út í umhverfið á vatnsverndarsvæði á Þingvöllum. Heilbrigðisfulltrúi segir neysluvatni hætta búin.

Áður hellt seyruvökva út í náttúruna
Fyrirtækið sem losaði seyruvökva úr roþtróm á vatnsverndarsvæðinu á Þingvöllum hefur áður gerst sekt um að leka slíkum vökva út í náttúruna.

Stóra Seyruvökvamálið:Fyrirtækið harmar mistökin
Holræsa- og Stífluþjónusta Suðurlands ehf., segist harma þau mistök að hafa losað seyruvökva á vatnsverndarsvæðinu á Þingvöllum um helgina.

Vatn á Þingvöllum ekki neysluhæft vegna seyruvökva
Vatn á Þingvallasvæðinu er ekki neysluhæft eftir að seyruvökva úr rotþróm var dælt á vatnsverndarsvæði, en saurkólígerlar fundust í vatninu.

Íhuga að taka sýni úr neysluvatni
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur fengið staðfestingu á því að verktaki hafi látið seyruvökva úr rotþróm leka á vatnsverndarsvæði á Þingvöllum. Sumarhúsaeigandi fer fram á að verktakanum verið vikið frá verkinu.