Innlent

Neysluvatni stefnt í hættu

Hafsteinn Hauksson skrifar
Grunur leikur á að seyruvökvi úr rotþróm hafi verið látinn leka út í umhverfið á vatnsverndarsvæði á Þingvöllum. Heilbrigðisfulltrúi segir neysluvatni hætta búin.

Sumarhúsaeiganda í Kárastaðalandi á Þingvöllum grunar að Holræsa- og stífluþjónusta Suðurlands, sem fengin hafði verið til að dæla upp úr rotþróm á svæðinu, hafi látið seyrulög renna út í umhverfið í þjóðgarðslandinu.

Maðurinn varð var við stóran gámabíl um 100 metra frá Þingvallavegi seinni part dags í gær, og þegar hann gáði betur að hafi megn óþefur gosið upp. Hann hafi svo séð slöngubarka leiddan um 15 metra úr bílnum og út í móa þar sem sérkennilegur vökvi hafi lekið út, væntanlega úr rotþróm á svæðinu.

Sumarhúsaeigandinn hefur sent heilbrigðiseftirlitinu á Suðurlandi afar harðort erindi þar sem hann fer fram á að eftirlitið taki á málinu. Í erindinu lýsir hann þungum áhyggjum af því að verktakinn hafi losað úr tanknum á vatnsverndarsvæði. Hann segir sumarhúsaeigendur í Kárastaðalandi fá neysluvatn sitt úr borholum sem taki vatn úr sama grunnvatsngeymi og seyrulögurinn síist nú niður í og brotið sé því bæði gróft og viðurstyggilegt.

Birgir Þórðarson, fulltrúi á mengunarvarnasviði heilbrigðiseftirlitsins, hafði ekki heyrt af málinu þegar fréttastofa hafði samband. Hann segir málið þó alvarlegt ef satt reynist enda um vatnsverndarsvæði að ræða. Heilbrigðiseftirlitið muni skoða málið eins fljótt og auðið er.

Ekki náðist í forsvarsmann Holræsa- og stífluþjónustunnar í dag, en aðrir starfsmenn vildu ekki tjá sig um málið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.