Innlent

Horft aftur til fortíðar í veiði

Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Skúli Guðbjörnsson að sigla út á Skálabátnum. Fréttablaðið/gva
Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Skúli Guðbjörnsson að sigla út á Skálabátnum. Fréttablaðið/gva
Nú stendur til að endurvekja grásleppuútgerð í Grímsstaðavör við Ægissíðu í Reykjavík. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði fram tillögu í menningarmálanefnd árið 2006 um endurvakningu útgerðarinnar og friðun grásleppuskúranna, þegar stóð til að jafna þá við jörðu.

Skúrarnir við Ægissíðu eru elstu minjar um smábátaútgerð í Reykjavík og segir Kjartan að afar mikilvægt sé að varðveita þá. Innviðir skúranna hafa nú verið gerðir upp og lýsingu komið fyrir en ytra útliti er haldið óbreyttu og segir Kjartan það vera til þess að varðveita svæðið í eins upprunalegri mynd og mögulegt er.

Auk grásleppuútgerðarinnar verður komið upp aðstöðu fyrir útikennslu grunnskóla í skúrunum og þjónustu fyrir ferðamenn. Skúli Guðbjörnsson hefur keypt Skálabátinn, tíæring frá Færeyjum, og hyggst sigla á honum út flóann að Álftanesi með ferðamenn í haust og vetur og leyfa þeim að upplifa grásleppuveiðar eins og þær tíðkuðust á árum áður.

Þrjátíu fornar varir eru í Reykjavík þar sem róður og útgerð tíðkuðust á árum áður. Útræði er hætt úr þeim öllum og víðast hvar hefur verið fyllt upp í þær.- sv


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×