Menn keppast við að hrósa hinum argentínska Lionel Messi eftir að hann skoraði öll fjögur mörk Barcelona í 4-1 sigrinum gegn Arsenal í kvöld.
„Við fengum færi en þegar þú mætir leikmanni eins og Lionel Messi er þér refsað fyrir öll mistök," sagði Arsene Wenger, stjóri Arsenal, eftir leikinn.
„Hann er ekki alltaf inni í leiknum en þegar hann fær boltann er hann óstöðvandi. Þegar hann tekur stefnubreytingar á þessum hraða ræður enginn við hann. Hann er hiklaust besti leikmaður heims, það er enginn sem kemst nálægt honum," sagði Wenger og markvörður hans tók í sama streng.
„Hann er besti leikmaður sem ég hef mætt og sá besti í heimi," sagði Manuel Almunia, markvörður Arsenal, sem þurfti fjórum sinnum að sækja boltann í netið í kvöld eftir mörk Messi.
Börsungar eru komnir í undanúrslit Meistaradeildarinnar þar sem þeir etja kappi við Ítalíumeistara Inter.