Innlent

Óð út í beljandi Krossá og bjargaði ferðamönnum

Ásmundur fór tvisvar út í strauminn til að bjarga ferðamönnunum.
Ásmundur fór tvisvar út í strauminn til að bjarga ferðamönnunum. Myndir/Særós Sigþórsdóttir

Tvítugur björgunarsveitarmaður, Ásmundur Þór Kristmundsson, drýgði hetjudáð í gær þegar hann óð út í Krossá í Þórsmörk til þess að bjarga tveimur frönskum ferðamönnum sem höfðu fest í lítilli bifreið í ánni.

Ásmundur festi sig í reipi sem hann batt við bíl á árbakkanum og óð út í ána. Síðan tók hann á karlinum í bílstjórasæti bifreiðarinnar og bar út í ána. Ferðamenn sem voru á árbakkanum drógu mennina svo í land en Ásmundur fór á kaf og var nærri því að drukkna. Í losti og hríðskjálfandi stakk hann sér svo aftur út í ána og náði í konuna sem enn var í bifreiðinni.

Þegar þau höfðu verið dregin að árbakkanum tókst honum að kasta konunni upp á bakkann en féll sjálfur út í ána þar sem hann lá í nokkrar sekúndur áður en hann var dreginn upp og hneig svo hálf meðvitundarlaus niður á árbakkann.

„Þetta var fáránleg upplifun," sagði Ásmundur þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gærkvöldi. „Ég er enn þá bara að átta mig á hlutunum."

Spurður um hvernig þetta bar að sagði Ásmundur: „Ég og kærastan mín vorum að labba í átt að Húsadal þegar við hittum ferðamenn sem voru öskrandi og á hlaupum í átt að Krossá. Við vorum ekki alveg með á nótunum þannig að við eltum bara fólkið að ánni. Þá sáum við lítinn Suzuki-bíl fljótandi í ánni og hann flaut þarna einhver hundruð metra áður en hann festist. Ég stóð síðan þarna á árbakkanum merktur Landsbjörg og fannst ég ekki geta annað en hjálpað. Ég batt þá reipi utan um mig og festi við bíl sem var þarna og óð út í ána," segir Ásmundur.

Ásmundur hafði nokkurn veginn jafnað sig um tíuleytið í gærkvöldi og kvað Frakkana vera í losti en himinlifandi með björgunina.- mþl

Ásmundur Þór Kristmundsson fór tvisvar út í hina straumhörðu Krossá til að bjarga frönskum ferðamönnum úr háska.
Barist við strauminn.
Áin var sérlega vatnsmikil eftir mikla rigningu síðustu daga.
Um tíma hélt Ásmundur að hann væri að drukkna.
Myndir/Særós Sigþórsdóttir.
Suzuki-bíll ferðamannanna flaut nokkur hundruð metra áður en hann festist.
Þegar ferðamönnunum hafði verið bjargað var beðið eftir kranabíl sem dró bílinn úr ánni.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.