Brasilíumaðurinn Kaka er 28 ára gamall í dag og hélt upp á það með því að æfa með aðalliði Real Madrid. Það lítur því allt út fyrir það að hann geti spilað með Real-liðin á móti Real Zaragoza á laugardaginn eftir að hafa verið frá vegna meiðsla síðan 10. mars.
„Hann lítur vel út og ég er ánægður fyrir hans hönd því hann er góður vinur og mikill fagmaður," sagði Cristiano Ronaldo um Kaka sem hefur ekkert spilað síðan í leiknum örlagaríka á móti Lyon þegar Real datt út úr Meistaradeildinni.
Kaka hefur verið að glíma við nárameiðsli og spilaði líklega Lyon-leikinn meiddur. Hann átti þá skelfilegan dag og fékk mikla gagnrýni í kjölfarið.
Kaka hefur alls spilað 20 deildarleiki með Real Madrid í vetur og í þeim hefur hann skorað 7 mörk og gefið 6 stoðsendingar á félaga sína.

