Það gengur ekki alveg sem skildi hjá Rafa Benitez síðan hann kom til Inter. Samanburðurinn við Jose Mourinho virðist fara verulega í taugarnar á honum og svo hafa fyrstu leikirnir með Inter ekki gengið nógu vel.
Jafntefli gegn Twente í Meistaradeildinni hefur síðan orðið þess valdandi að þjálfarinn er grimmilega gagnrýndur.
Benitez ætlar nú að taka mikla áhættu. Hann ætlar ekki að byggja ofan á grunninn sem Mourinho hefur byggt hjá félaginu. Þess í stað ætlar hann að hætta að spila 4-2-3-1 og byrja upp á nýtt með nýja leikaðferð.
Benitez vill spila með þriggja manna miðju og vera með svipað kerfi og Roberto Mancini notaði hjá Inter á sínum tíma.
Benitez mun einnig spila með tvo framherja og Wesley Sneijder í holunni fyrir aftan hann.
Þetta telja margir vera ansi djarft enda var leikaðferð og áherslur Mourinho að virka vel.