„Ég lít á þessa refsingu eins og hvern annan verðlaunapening. Ég ætla ekki að breyta neinu hjá mér. Langamma mín dó fyrir löngu síðan en ég man enn hvað hún sagði mér; Ef að aðrir eru öfundssjúkir út í þig þá ætti þú að vera ánægður," sagði Jose Mourinho á blaðamannafundi.
Xabi Alonso og Sergio Ramos fengu báðir sitt annað gula spjald fyrir að tefja leikinn á skrautlegan hátt og strax daginn eftir birtustu myndir af því hvernig Jose Mourinho kom skilaboðum til þeirra í gegnum Jerzy Dudek og Iker Casillas.
Með því að ná í sitt annað gula spjald í leiknum fóru Alonso og Ramos í leikbann í lokaleik riðilsins, sem skiptir engu máli, en þeir mæta þess í stað með hreinan skjöld inn í sextán liða úrslitin.

Mourinho tekur út eins leiks bann strax en er síðan á skilorði varðandi seinni leikinn. Hann fékk einnig háa sekt líkt og allir leikmennirnir sem komu að málinu.
„Ég má ekki yfirgefa mitt tæknilega svæði en aðrir fá að gera það. Ég má ekki taka upp boltann þegar mótherji á hann en aðrir mega gera það. Ég má ekki tala við fjórða dómarann en aðrir mega gera það. Þetta eru líka verðlaun í mínum huga og ég hef engar áhyggjur af þessu," sagði Mourinho og það verður seint of oft sagt að það finnst enginn annar þjálfari eins og hann í heiminum.