Innlent

Málsvörn ráðherranna

Geir H. Haarde
Geir H. Haarde
Enginn ráðherranna fjögurra sem meirihluti þingmannanefndar telur hafa brotið lög í embætti á árinu 2008 kannast við slíkt. Þvert á móti vísa þeir öllum slíkum ásökunum út í hafsauga.

Sem kunnugt er komst meirihluti þingmannanefndar undir forystu Atla Gíslasonar að þeirri niðurstöðu að Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson, Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi gerst sek um refsiverða háttsemi í embættisfærslu þeirra á árinu 2008. Í því ljósi beri að höfða gegn þeim sakamál fyrir landsdómi.

Til grundvallar liggur fyrst og fremst skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis (RNA) en önnur gögn að auki. Í erindum til þingmannanefndarinnar röktu fjórmenningarnir sjónarmið sín til ávirðinga sem á þá voru bornar í skýrslu RNA eða annars þess sem um þá var sagt.

Í stuttu máli má segja að þeir tæti í sig ásakanir um vanrækslu í starfi og færa ýmis rök máli sínu til stuðnings. Útskýringar á lagaumhverfi, starfsháttum og einstökum aðgerðum í aðdraganda hrunsins eru meginefni málsvarna þeirra en þrír af fjórum vísa til síðari tíma atburða. Nefnilega þess að umfangsmiklar rannsóknir standa nú yfir á hátterni eigenda og stjórnenda bankanna, bæði innan búa þeirra og hjá saksóknara. Geir, Árni og Ingibjörg vísa til þess en Björgvin ekki.

Ábyrgð í ljósi afbrota
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Geir segir að vísbendingar séu uppi um að umfangsmikil brotastarfsemi hafi átt sér stað innan fjármálageirans og víðar í viðskiptalífinu. Yfirvöldum og forystumönnum í stjórnmálum hafi með öllu verið ókunnugt um þau mál. „Virðist nú blasa við að veiking bankanna innan frá hafi ekki verið minna vandamál en stærð þeirra í hlutfalli við efnahag þjóðarinnar. Það segir sig sjálft að ráðamenn hefðu ekki reynt að liðsinna fjármálafyrirtækjunum með þeim hætti sem gert var hefðu þeir haft grun um að innan þeirra ætti sér stað athæfi sem ekki þyldi dagsins ljós,“ segir Geir. Enn fremur blasi við að ábyrgð endurskoðenda sé mikil.

Ingibjörg segir að fram hafi komið sterkar vísbendingar um að eigendur og stjórnendur bankanna hafi gerst sekir um alvarleg brot sem virðast hafa farið fram hjá öllum sem áttu að hafa eftirlit með starfseminni. „Þegar mál eru skoðuð í því ljósi verður heldur ankannalegt að telja að ég hafi haft einhverja þá vitneskju eða afl sem þurfti til að forða fjármálakerfinu frá falli.“

Árni segir ásakanir um meinta vanrækslu ráðherra vera veikburða og ósanngjarnar í ljósi þeirra umfangsmiklu rannsókna sem nú fara fram. „Sé staðan sú, eins og margt virðist benda til, að glæpsamlegt athæfi í bönkunum og yfirhylming þess hafi gert eftirlitsaðilum (FME og Seðlabanka) ómögulegt að átta sig á hinni raunverulegu stöðu og þar með leitt til þess að viðkomandi ráðherrum (viðskr. og forsætisr.) var gefin röng mynd af stöðunni, hver ber þá ábyrgðina? Getur ráðherra (að ég tali nú ekki um ráðherra sem ekki ber ábyrgð á viðkomandi málaflokki) borið ábyrgð og sætt ákæru refsiréttarlegs eðlis vegna meintrar vanrækslu sem á rót sína í hugsanlega glæpsamlegu athæfi þriðja aðila sem ekki komst upp fyrr en að atburðarásinni afstaðinni? Ég tel ekki og vona að þingmannanefndin sé mér sammála um það,“ segir Árni.

Margt var gert
Árni M. Mathiesen
Fyrsta kæruatriði meirihluta þingmannanefndarinnar í tilvikum ráðherranna allra er, saman dregið, að þeir hafi ekki brugðist með fullnægjandi hætti við stórfelldri hættu sem vofði yfir fjármálastofnunum og ríkissjóði til að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins.

Geir Haarde svarar sambærilegum ásökunum RNA á ellefu blaðsíðum, sendum þingmannanefndinni. Rekur hann margvíslegar aðgerðir sem stjórnvöld réðust í til að afstýra því að illa færi. Gjaldeyrisvarasjóður hafi verið efldur, unnið hafi verið að því að koma Icesave í dótturfélög, áhersla hafi verið lögð á að bankarnir minnkuðu efnahagsreikninga sína, reynt hafi verið að tryggja aðild að samstarfi Evrópuríkja um fjármálastöðugleika og upplýsingamiðlun út á við hafi verið bætt. Allt hafi það snúist um að reyna að afstýra því að illa færi án þess að orsaka áhlaup á bankana. Kveðst Geir telja að róttækar breytingar á lagaumhverfi bankanna á árinu 2008 hefðu hiklaust getað valdi hruni þeirra með því að gefa almenningi og mörkuðum til kynna að þeir ættu í stórfelldum erfiðleikum.

Geir bendir líka á yfirlýsingar eftirlitsaðila. Í maí 2008 hafi Seðlabankinn sagt að á heildina litið væri fjármálakerfið í meginatriðum traust og í ágúst hafi Fjármálaeftirlitið sagt niðurstöður álagsprófs sýna að undirstöður bankanna væru traustar og eiginfjárstaða þeirra sterk. „Ég tók fullt mark á álagsprófum FME og niðurstöður prófsins í ágúst 2008 léttu af mér verulegum áhyggjum. RNA gerir hins vegar margs konar athugasemdir við þessi próf og telur þau hafa verið gölluð. Um það höfðu ráðherrar enga vitneskju enda byggir sú niðurstaða á rannsóknum nefndarinnar í kjölfar hrunsins.“

Logið að forsætisráðherra
Björgvin G. Sigurðsson
Geir er sakaður um að hafa ekki látið vinna heildstæða greiningu á fjárhagslegri áhættu ríkisins vegna hættu á fjármálaáfalli. Segir hann að hvað sem öllum upplýsingum hefði liðið hefði slíkt mat engin áhrif haft til að koma í veg fyrir hrun bankanna. Þá er hann sakaður um að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum til að draga úr stærð bankanna. Segir Geir það hafa verið skýrt markmið stjórnvalda en þau ekki haft mörg tæki til að beita í því efni. Auðvelt sé að gera um það ágreining eftir á þegar ljóst sé að markmiðið náðist ekki í tíma.

Í lokaorðum segir Geir: „Ég hef varið mörgum árum í störf á vettvangi stjórnmála og kynnst þar mörgu fólki. En ég hef ekki átt því að venjast að mér sé vísvitandi sagt ósatt um mikilvæg mál hvað þá að málsmetandi ábyrgðarmenn stórra fyrirtækja geri sig seka um slíkt gagnvart forsætisráðherra. Slíku hafði ég ekki kynnst fyrr en í aðdraganda bankahrunsins og gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en eftir á.“

Vissu ekkiÍ athugunum á aðgerðum stjórnvalda í aðdraganda hrunsins hefur meðal annars verið reynt að finna út hver vissi hvað hvenær. Björgvin og Ingibjörg víkja bæði að þeim málum. Björgvin segir hreint út að honum hafi verið haldið utan við atburðarás er varðaði efnahagsmálin. „Það hlýtur að vera óumdeilt að enginn getur tekið afstöðu til upplýsinga sem hann hefur ekki undir höndum. Og enginn getur sýnt af sér vanrækslu með athafnaleysi með því að bregðast ekki við upplýsingum sem fram koma á fundum sem hann veit ekki af,“ segir hann.

Ingibjörg tíundar hins vegar ýmis gögn og upplýsingar sem varða efnahagsmál sem haldið var frá henni en hún telur eðlilegt að hefðu ratað til ríkisstjórnarinnar eða hennar sem oddvita annars stjórnarflokksins. Það hafi ekki verið fyrr en á þessu ári að hún hafi vitað af tilvist þeirra. En Ingibjörg upplýsir líka að í framhaldi funda með stjórn Seðlabankans hafi hún rætt það sem þar fór fram á þingflokksfundum Samfylkingarinnar, sérstökum fundum ráðherra flokksins og í hagráði hans.

Málsvörn fyrir landsdómiFari svo að Alþingi samþykki að ákæra ráðherrana fyrrverandi verður landsdómur kallaður saman. Fyrir honum munu þeir flytja eiginlega málsvörn og njóta liðsinnis lögmanna. Þar verður ákæruatriðunum svarað lið fyrir lið, án efa með mun ítarlegri hætti en í bréfunum til þingmannanefndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×