Erlent

Bóksalinn í Kabúl vann gegn Seierstad

Óli Tynes skrifar

Norska blaðakonan og rithöfundurinn Åsne Seierstad hefur verið dæmd til þess að greiða eiginkonu bóksalans í Kabúl 125 þúsund norskar krónur í miskabætur fyrir samnefnda bók sem hún skrifaði árið 2001.

Það gerir tæplega tvær og hálfa milljón íslenskra króna. Forlagið sem gaf út bókina var dæmt til að greiða sömu upphæð.

Bóksalinn hefur tilkynnt að hann ætli að höfða skaðabótamál fyrir hönd sjö annarra fjölskyldumeðlima.

Meðan hún var að safna efni í bókina bjó Seierstad á heimili bóksalans Rais. Hún segir að fjölskyldunni hafi verið fullkunnugt um verkefni hennar og hún hafi hjálpað sér á margvíslegan hátt við efnisöflun.

Þar fyrir utan hafi bókin á engan hátt sært æru fjölskyldunnar.

Bóksalinn segir hinsvegar að þau hafi ekkert vitað um bókina. Bæði Seierstad og forlagið ætla að áfrýja dóminum til hæstaréttar.

Talið er að Seierstad hafi hagnast um hálfan milljarð íslenskra króna á bókinni sem hefur verið þýdd á 30 tungumál.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×