Erlent

Slapp frá mannræningjum og spurði um íþróttaálfinn

Móðir Sahil kyssir mynd af honum. Hún bíður eftir honum í Bretlandi.
Móðir Sahil kyssir mynd af honum. Hún bíður eftir honum í Bretlandi.

Móðir Sahil Saeed, sem er fimm ára gamall, segir að það fyrsta sem drengurinn spurði sig að eftir að hann var látinn laus af mannræningjum í nótt, var hvar leikföngin hans úr Latabæ væru.

Sahil var rænt af þremur vopnuðum mönnum í Pakistan þann 3. mars en þá dvaldi hann hjá ömmu sinni í bænum Jhelum. Ræningjarnir kröfðust 100 þúsund pund í lausnargjald sem fjölskyldan greiddi. Móðir Sahil, Akila Naqqash, er búsett í Bretlandi þar sem Sahil er fæddur og uppalinn.

Eftir að fjölskyldan greiddi lausnarféð var drengurinn látinn laus og fannst hann gangandi á akri í Pakistan í nótt.

Íþróttaálfurinn talar við nokkur börn á aldur við Sahil. Myndin tengist ekki fréttinni beint.

Það var svo í dag sem hann hringdi í móður sína sem var himinlifandi yfir að endurheimta son sinn en sjálf er hún stödd í Bretlandi. Hún segir í viðtali við BBC að drengurinn hafi borið sig mjög vel þrátt fyrir ótrúlegar raunir. Það fyrsta sem hann spurði mömmu sína að var hvar dúkka sem hann á af íþróttaálfinum væri, en það er Magnús Scheving sem leikur álfinn að öllu jöfnu. Svo bætti móðir hans við að drengurinn væri mikill aðdáandi Latabæjar.

Mannránið þykir mjög sérstætt en breskir fjölmiðlar, sem hafa fylgst afar náið með málinu, hafa látið að því liggja að faðir drengsins sé á einhvern hátt ábyrgur fyrir ráninu. Móðir Sahil og faðir hans standa í mjög ljótum skilnaði þessa daganna.

Nokkrir menn hafa verið handteknir í Pakistan grunaðir um verknaðinn, þeim hefur öllum verið sleppt. Þá voru fjórir lögreglumenn reknir eftir að þeir hunsuðu neyðarkall fjölskyldunnar þegar hún hugðist tilkynna mannránið.

Lögreglan í Pakistan hefur ekki neinn í haldi vegna málsins en það er í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×