Innlent

Fékk tilboð um kynferðislega þjónustu

Ásgeir Davíðsson var einn viðmælenda bandaríska sendiráðsins um mansal á Íslandi.
Ásgeir Davíðsson var einn viðmælenda bandaríska sendiráðsins um mansal á Íslandi.
Starfsmaður bandaríska sendiráðsins var árið 2006 sendur í rannsóknarferð inn á nektarstaðinn Goldfinger í Kópavogi, þar sem hann fékk tilboð um „kynlífsþjónustu", eins og það er orðað í skýrslu sendiráðsins, sem Fréttablaðið hefur undir höndum og Wikileaks hefur boðað birtingu á.

Rannsóknarferð sendiráðsstarfsmannsins, sem ekki er nafngreindur í skjalinu, var þáttur í samantekt fyrir árlega skýrslu Bandaríkjastjórnar um mansal í heiminum.

Sendiráðið leggur á ári hverju mikla vinnu í Íslandskafla skýrslunnar, þar sem fjallað er um mansal á Íslandi, hversu algengt það er, hvernig löggjöf sé háttað og til hvaða aðgerða stjórnvöld hafa gripið.

Við undirbúning skýrslunnar árið 2006 ræddu starfsmenn sendiráðsins við þrettán manns, þar á meðal við Guðrúnu Jónsdóttur, fjölmiðlafulltrúa Stígamóta, Jóhann Benediktsson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, og Ásgeir Davíðsson, eiganda Goldfinger.

Ásgeir er sagður neita því að nokkuð ólöglegt fari fram á Goldfinger. „Starfsmanni embættisins, sem heimsótti staðinn, var engu að síður boðin kynlífsþjónusta - sem bendir til þess að eigendur og lögregla láti að minnsta kosti sem þeir sjái ekki ólögmæta iðju sem stefnir konum í hættu. Hann tók einnig eftir því að einn dansaranna virtist vera með glóðarauga, sem gæti - að vísu eingöngu byggt á atvikslýsingu - bent til misnotkunar í tengslum við starfið."- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×