Jose Mourinho sagði eftir sigur sinna manna í Inter á Barcelona í kvöld að hann hefði ekki getað farið fram á meira frá sínum leikmönnum í leiknum.
„Þeir gáfu allt í leikinn," sagði Mourinho. „Við undirbjuggum okkur vel fyrir leikinn en leikmenn sýndu mikinn andlegan styrk í leiknum. Við áttum skilið að vinna en reynslan segir að verkefninu er ekki enn lokið."
Inter vann leikinn, 3-1, en síðari viðureignin í undanúrslitarimmu liðanna í Meistaradeild Evrópu fer fram í Barcelona í næstu viku.
Barcelona komst yfir í leiknum en Mourinho sagði að það hefði ekki slegið hann út af laginu. „Við gerðum mistök í markinu en við héldum bara áfram. Mér fannst þeir lenda í miklum vandræðum þegar við fórum að sækja langt fram á völlinn. Við stóðum okkur mjög vel."