Innlent

Sigurjón verst líka riftun og segist gjaldþrota gangi hún eftir

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sigurjón Þ. Árnason. Lögmaður hans telur kröfur slitastjórnarinnar fráleitar. Sigurjón eigi enga sjóði til að verjast þeim.
Sigurjón Þ. Árnason. Lögmaður hans telur kröfur slitastjórnarinnar fráleitar. Sigurjón eigi enga sjóði til að verjast þeim.

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, segir að gangi 300 milljóna króna riftunarmál sem slitastjórn Landsbankans hefur höfðað á hendur honum vegna launauppgjörs eftir verði hann gjaldþrota. Lögmaður hans segist ekki skilja hvers vegna slitastjórn sé að krefja hann um 37 milljarða þar sem hann hafi að mestu verið atvinnulaus frá 8. október 2008. Þetta kemur fram í bréfi sem lögmaður hans, Sigurður G. Guðjónsson, sendi slitastjórn Landsbankans vegna tveggja krafna að fjárhæð samtals 37 milljarðar króna, sem fréttastofa greindi frá fyrr í dag, en Sigurjón og Halldór J. Kristjánsson eru hvor um sig krafðir um 37 milljarða króna í skaðabætur, eins og fréttastofa greindi frá í hádeginu.

Kröfurnar tvær, sem kynntar voru á fundi með kröfuhöfum Landsbankans á Hótel Nordica í morgun, eru annars vegar 18 milljarðar króna vegna þess að látið var hjá líða að innheimta ábyrgð Kaupþings í Lúxemborg að andvirði sömu fjárhæðar vegna láns til Fjárfestingarfélagsins Grettis, sem var í eigu Björgólfsfeðga. Elín Sigfúsdóttir er einnig krafinn um 18 milljarða króna á þessum sama grundvelli. Hin krafan sem beinist að bankastjórunum fyrrverandi er vegna 19 milljarða króna láns sem Straumur Burðarás, sem einnig var í eigu Björgólfsfeðga, fékk afgreitt hinn 2. október 2008, aðeins sex dögum fyrir setningu neyðarlaganna og þar með hrun bankakerfisins.

Sigurður G. sem telur kröfur slitastjórnarinnar fráleitar, segir í bréfinu sem hann sendi slitastjórn að Sigurjóni sé ekki ljóst hvaða tilgangi það þjóni að krefja hann um [37 milljarða króna] því slitastjórn sé fullkunnugt um að fjárhæðin verði ekki sótt í sjóði hans þar sem hann hafi að mestu verið atvinnulaus frá 8. október 2008 og þurfi auk þess að verjast 300 milljóna króna riftunarkröfu vegna launauppgjörs. Gangi hún eftir verði Sigurjón gjaldþrota, þar sem hann eigi ekki eignir til að mæta kröfunni.






Tengdar fréttir

Slitastjórn Landsbankans krefur stjórnendur um 37 milljarða

Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjórar Landsbankans, eru hvor fyrir sig krafðir um 37 milljarða króna en slitastjórn Landsbankans hefur ákveðið að höfða skaðabótamál á hendur þeim vegna meintrar vanrækslu. Þá er Elín Sigfúsdóttir krafin um 18 milljarða króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×