Enski boltinn

Al Fayed: Hodgson notfærði sér félagið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mohamed Al Fayed ræðir við Roy Hodgson.
Mohamed Al Fayed ræðir við Roy Hodgson. Nordic Photos / Getty Images

Mohamed Al Fayed, eigandi Fulham, segir að Roy Hodgson hafi nýtt sér félagið til að koma sér áfram í knattspyrnuheiminum.

Hodgson fór frá Fulham í sumar er honum bauðst að taka við Liverpool og sagði Al Fayed reyndar að hann hefði þegar fyrirgefið Hodgson fyrir það. Mark Hughes er nýr knattspyrnustjóri Fulham.

„Hughes tekur nú við frábæru liði sem náði góðum árangri. En því miður notfærði hinn náunginn [Hodgson] sér þá stöðu sem við komum honum í og yfirgaf okkur," sagði Al Fayed. „En gangi honum vel og gangi Liverpool vel."

Al Fayed er greinilega mikill húmoristi, af ummælum hans um Hughes að dæma. „Hann er indæll náungi. Hann er mun myndarlegri og ég er viss um að hann muni standa sig vel."

Hughes sagði á blaðamannafundi í gær að hann þyrfti væntanlega að styrkja sókn Fulham og myndi því biðja eigandann fallega um pening til leikmannakaupa.

Því næst rétti Al Fayed, sem sat við hlið hans, honum 50 punda seðil og sagði að þakkir væru óþarfar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×