Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að félagið eigi góða möguleika á að komast áfram í Meistaradeildinni. Liðið mætir FC Bayern í átta liða úrslitum.
Bayern var mótherji United í úrslitaleik keppninnar 1999 þegar Sir Alex og lærisveinar hrósuðu sigri eftir mikla dramatík og unnu þrennuna mögnuðu það tímabil.
Liðin mættust í átta liða úrslitum 2001 og þá kom þýska liðið fram hefndum og United féll úr leik.
„Þegar horft er á fyrri viðureignir þessara liða sést að þetta verður mjög erfitt fyrir okkur," segir Sir Alex en Bayern hefur haft betur í innbyrðis viðureignum liðanna síðustu ár.
„Vonandi verða allir sem við þurfum á að halda heilir fyrir þennan leik. Ef svo er eigum við góða möguleika."