HB og B36 gerðu í dag 2-2 jafntefli í færeysku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í miklum grannaslag en bæði lið eru frá Þórshöfn.
Símun Samuelsen, fyrrum leikmaður Keflavíkur, kom HB yfir með marki á 24. mínútu leiksins en B36 skoraði tvö mörk með fjögurra mínútna millibili stuttu síðar.
Þórður Steinar Hreiðarsson jafnaði svo metin fyrir HB á 67. mínútu og reyndist það lokamark leiksins.
Kristján Guðmundsson er þjálfari HB en liðið er nú í öðru sæti deildarinnar með átján stig, jafn mörg og ÍF sem er með betra markahlutfall.
