Milljónir manna komust hvergi og þurftu að fresta ferðum sínum þegar loka þurfti flugvöllum og tafir urðu á lestarsamgöngum víðs vegar um Evrópu vegna snjóa og kulda í gær.
Í Danmörku voru íbúar á sunnanverðu Sjálandi hvattir til að halda sig heima, og komust raunar hvergi vegna fannfergis.
Snjór lá yfir nánast öllu Þýskalandi í gærmorgun og þurftu tugir manna að sofa í lestarvögnum í Frankfurt og Leipzig vegna þess að öll hótel urðu yfirfull eftir að fresta þurfti lestarferðum.
Loka þurfti flugvellinum í Prag í Tékklandi í fyrrinótt og í Póllandi fór frostið niður í 26 stig, sem er nánast óþekkt á þessum árstíma.
Í Belgíu mynduðust samtals um 600 kílómetra langar umferðarteppur og í norðanverðu Frakklandi sátu þúsundir ökumanna fastir í bílum sínum.
Veðurfræðingar spá áframhaldi á snjókomunni næstu daga.- gb