Innlent

Kartöflupokakisurnar eru ennþá í Kattholti

Tvær af kisunum eru byrjaðar að mala, sem er gott batamerki.fréttablaðið/anton
Tvær af kisunum eru byrjaðar að mala, sem er gott batamerki.fréttablaðið/anton
Kisurnar níu sem fundust í kartöflupoka í Heiðmörk á fimmtudaginn eru nú allar í umsjón dýravinanna í Kattholti. Dýrin voru svo illa haldin eftir meðferð fyrri eiganda að þau eru enn þá hvekkt og bregðast illa við þegar reynt er að láta vel að þeim.

„Tvær eru þó byrjaðar að mala hjá mér,“ segir Elín G. Folha, starfsmaður í Kattholti, og segir það gott batamerki.

Fréttablaðið greindi frá því á laugardaginn að maður sem var á gangi með hundinn sinn í Heiðmörk gekk fram á poka sem í reyndust vera níu kettir. Þeir voru frá þriggja mánaða til eins árs gamlir. Hann ætlaði sér að reyna að finna eigendur fyrir fjóra af þessum níu en það bar ekki árangur. Hann kom köttunum þess vegna til starfsfólksins í Kattholti í gær.

„Núna eru þeir allir hérna vesalingarnir litlu,“ segir Elín. Hún segir engar tilraunir hafa verið gerðar til að finna þeim ný heimili þar sem þeir séu ekki tilbúnir undir slík vistaskipti. Elín vill halda þeim í Kattholti fyrst um sinn en veit ekki hversu lengi. Það gætu þó verið mánuðir þangað til úr rætist.

Í Kattholti eru þessa dagana um hundrað heimilislausir kettir en þeir hafa flestir verið á milli 150 og 200. „Þeir eldri dvelja oft lengi hérna hjá okkur því það eru kettlingarnir sem fólk vill,“ segir Elín. Hún segir að það algjöra þrautalendingu að láta svæfa dýrin, en stundum verði það ekki umflúið. - shá


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.