Innlent

Hagsmunir að segja frá brotum

vísað frá Kæru á hendur Agnesi Bragadóttur var vísað frá líkt og hinum.
fréttablaðið/gva
vísað frá Kæru á hendur Agnesi Bragadóttur var vísað frá líkt og hinum. fréttablaðið/gva

Sérstakur saksóknari hefur vísað fimm kærumálum Fjármálaeftirlitsins (FME) á hendur blaðamönnum frá. Meðal þess sem vísað er til er lýðræðislegt hlutverk fjölmiðla og almannahagsmunir sem felast í að greina frá brotum.

Sex blaðamenn, þau Agnes Bragadóttir og Þorbjörn Þórðarson á Morgunblaðinu, Reynir Traustason og Ingi F. Vilhjálmsson á DV, Kristinn Hrafnsson, fyrrverandi fréttamaður á Stöð 2, og Egill Helgason hjá RÚV og Eyjunni, voru kærðir fyrir að brjóta lög um bankaleynd. Kærunum er vísað frá dómi á misjöfnum forsendum.

Í tilvikum Agnesar og Kristins er vísað til þess að kærufrestur FME hafi löngu verið liðinn þegar kært var. Egill er sagður hafa fjallað um málefni bankans, sem ekki ríki bankaleynd yfir, og vísað er til tjáningarfrelsis hans.

Í tilvikum Inga og Reynis og Þorbjörns er viðurkennt að blaðamennirnir hafi haft upplýsingar úr lánabók Kaupþings er varða viðskipta- og einkamálefni viðskiptavina. Hins vegar segir að þeir hagsmunir vegist á við stjórnar­skrárvarið tjáningarfrelsi blaðamannanna, lýðræðislegt hlutverk fjölmiðla að stuðla að upplýstri umræðu og þá almannahagsmuni að vekja athygli á rannsóknarverðum athöfnum.

Þá segir að þar sem leynd hafi verið rofin á gögnunum sé ekki hægt að endurvekja hana og umfjöllun blaðamannanna sé ekki brot á lögum um bankaleynd.- kóp



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×