„Á þessum tíma var ég hluthafi og og langar að fá svör," segir lögfræðineminn Finnbogi Vikar sem hefur óskað eftir lögreglurannsókn á risastyrk FL Group upp á þrjátíu milljónir til Sjálfstæðisflokksins í lok árs 2006.
Finnbogi vakti athygli fyrir skelegga framgöngu á borgarafundi í Suðvesturkjördæmi í gærkvöldi en þá spurði hann Bjarna Benediktsson hvort það gætu verið tengsl á milli REI málsins svokallaða og svo hins himin háa styrks. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni, sagðist ekki vænta þess að einhver tengsl væru á milli þessara tveggja mála.
Finnbogi er ekki sannfærður og hefur illan grun um að þarna hafi verið að greiða Sjálfstæðisflokknum fyrir einhvern greiðann: „Ég vil bara skilja afhverju styrkurinn var reiddur fram með svo mikilli leynd."
Guðlaugur Þór Þórðarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins bar af sér sakir Morgunblaðsins sem fullyrti í morgun að hann hefði haft milligöngu um styrk FL Group sem og Landsbankans. Guðlaugur Þór sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis nú í dag en Morgunblaðið stendur við fréttina.
Þá sagði í fréttum RÚV að fréttastofan hefði einnig heimildir fyrir því að Guðlaugur Þór hefði haft milligöngu um styrkinn.
Nú þegar hefur Geir H. Haarde, sem er í krabbameinsmeðferð í Hollandi, tekið á sig ábygðina vegna styrksins frá FL Group. Reyndar tók hann einnig ábyrgð á styrk Landsbankans upp á 25 milljónir, aðeins sjö mínútum síðar.
Hér er svo kæran sem var lögð inn til Ríkislögreglustjóra nú í morgun:
Bréf til Ríkislögreglustjóra:Ríkislögreglustjóri
Skúlagötu 21
101 Reykjavík
Selfossi 9. apríl 2009
Efni: Ósk um opinbera rannsókn.
Undirritaður, Finnbogi Vikar kt: 220878-3849, hluthafi í FL Group, óskar eftir að lögregla hefji rannsókn vegna óvenju hárrar styrkveitingar frá FL Group til Sjálfstæðisflokksins í árslok 2006.
Undirritaður telur að hugsanlega hafi greiðandi, móttakandi og milligöngumaður/milligöngumenn brotið almenn hegningarlög nr. 19/1940, þegar FL Group greiddi Sjálfstæðisflokknum kr. 30.000.000,- þrjátíu milljónir, þann 29. desember 2006. Undirritaður telur telur að sú upphæð sem að framan greinir, sé svo óvenjuleg og há, að hún geti fallið undir brot á hegningarlögum.
Greiðsla þessi átti sér stað áður en lög um fjármála stjórnmálaflokka tóku gildi í ársbyrjun 2007, en sá kafli laganna sem nær til fjármála þátttakenda í prófkjörum tók ekki gildi fyrr en að loknum þingkosningum vorið 2007. Ekki er því kært vegna hugsanlegra brota á þeim lögum.
Um málsatvik hefur undirritaður einungis upplýsingar úr fjölmiðlum. Þau eru með þeim hætti að undirritaður telur að óeðlilega hafi verið staðið að umræddri styrkveitingu. Í fréttaskýringu á bls. 4 í Morgunblaðinu í dag segir að Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, hafi haft frumkvæði um að leita til FL Group og biðja um styrkveitinguna. Hafa ber í huga að Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í viðtali í Reykjavík Síðdegis á útvarpstöðinni Bylgjunni þann 8. apríl 2009, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið með mjög erfiða og bága fjárhagsstöðu eftir kostnaðarsamar borgarstjórnarkosningar vorið 2006. Í fréttaskýringunni í Morgunblaðinu er þetta áréttað og sett í samhengi við fjárþörf fyrir aðdraganda kosninga til Alþingis vorið 2007.
Undirritaður vekur athygli á að skömmu eftir þessa styrkveitingu hafi farið af stað ferli sem kennt er við REI, Reykjavik Energy Invest. Þar tókust á mjög miklir fjárhagslegir hagsmunir sem vörðuðu samskipti Orkuveitu Reykjavíkur og Geysir Green Energy, sem FL Group var stór hluthafi í og átti afdrifaríkra hagsmuna að gæta.
Undirritaður telur brýnt að lögregla aðhafist snarlega í máli þessu, til þess að gögnum verði ekki spillt. Bendir undirritaður í því samhengi á að nú þegar hafi komið fram misvísandi upplýsingar í fjölmiðlum um það hverjir stóðu að eða vissu um þessar greiðslur.
Virðingarfyllst,
_______________________________________
Finnbogi Vikar, kt. 220878-3849
Afrit sent: Ríkissaksóknara.