Innlent

Steingrímur J. ræddi um ímynd kvenna

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður jafnréttisnefndar Evrópuráðsþingsins, flutti erindi á alþjóðlegri ráðstefnu um opinbera ímynd kvenna sem haldin var dagana 26. − 28. mars á Malaga á Spáni.

Ráðstefnan var haldin á vegum jafnréttisnefndar svæðisstjórnar Suður-Spánar og kvennafræðastofnunar Andalúsíu, sem er sjálfstjórnarhérað á Suður-Spáni. Tilefni ráðstefnunnar voru tvær lagasetningar sem nýverið tóku gildi á Suður-Spáni og taka m.a. til virðingar fyrir mannlegri reisn kvenna í mynd- og ritmáli í fjölmiðlum og auglýsingum og ærumeiðandi málnotkunar með vísan í kynferði.

Steingrímur fjallaði um í erindi sínu ályktun Evrópuráðsþingsins frá árinu 2007 um ímynd kvenna í auglýsingum. Í ályktunni er bent á mikilvægi auglýsinga við að móta gildismat og skapa opinbera ímynd af veruleikan í hugum fólks. Það eigi ekki síst við um ungmenni vegna þess hversu móttækileg þau eru og þess að auglýsingar, ólíkt öðrum menningarmiðlum eins og kvikmyndum og listaverkum, er hvarvetna að finna sem áreiti í umhverfi þeirra eins og í útvarpi, sjónvarpi og dagblöðum og ekki síst á netinu og auglýsingaveggjum innan og utan dyra.

Í ályktuninni er það jafnframt harmað hversu mikill hluti auglýsinga viðhalda einhæfri ímynd af konum sem kynverum í stað þess að endurspegla þau fjölbreytilegu hlutverk sem konur gegna í þjóðfélaginu til jafns á við karlmenn.

Meðal fyrirlesara voru fulltrúar frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, spænskum stjórnvöldum, samtökum auglýsingastofa á Spáni, háskólum og félagasamtökum. Alls sóttu um 350 manns víðs vegar að ráðstefnuna. Kom þetta fram í fréttatilkynningu frá Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×