Innlent

Lögreglumönnum fækkað töluvert

Lögreglumönnum á Suðurnesjum hefur fækkað um rúm 20 prósent síðustu misseri sökum fjárskorts. Ef halda á því þjónustustigi sem nú er hjá embættinu verður að koma til aukafjárveiting. Verið er að skoða hvort alvarleg skekkja sé í rekstrargrunninum sem fjárheimildir til embættisins eru byggðar á.

Áður en til sameiningar lögreglu-, sýslumanns- og tollaembætta á Suðurnesjum kom störfuðu um 90 lögreglumenn á svæðinu. Samkvæmt heimildum fréttastofu er þeir nú um 70 talsins og hefur þeim því fækkað um 22 prósent á skömmum tíma. Að sama skapi hefur flugumferð um Keflavíkurflugvöll aukist um fimmtung og kröfur um hert eftirlit með flugfarþegum eru meiri.

Eins og greint hefur verið frá í fréttum Stöðvar 2 þá gerir rekstraráætlun embættisins ráð fyrir að fara um 200 milljónum fram yfir fjárheimildir á þessu ári. Dómsmálaráðherra hefur hins vegar sagt að það gangi ekki og að virða skuli fjárlög. Heimildir fréttastofu herma að það sé ekki hægt nema með niðurskurði og þá aðallega með því að fækka lögreglumönnum enn frekar. Nú er verið að skoða hvort alvarleg skekkja hafi verið í rekstrargrunninum sem fjárheimildir embættisins eru byggðar á. Yfirmenn lögregluembættisins funda á morgun í dómsmálaráðuneytinu þar sem þeir munu skýra sjónarmið sín.

Lögreglumönnum hefur fækkað víðar en á Suðurnesjum. Eins og fram hefur komið í fréttum er mikil óánægja meðal lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu með ástandið og þá hefur lögreglan á Selfossi kvartað undan manneklu. Sömu sögu er að segja á Akureyri og víðar. Þeir lögreglumenn sem fréttastofa hefur rætt við að undanförnu segja að það hafi aldrei verið markmiðið með sameiningu embætta, heldur hafi átt að hagræða í yfirstjórn og á stoðsviðum lögreglu. Nú hafi menn hins vegar áhyggjur af því hvert stefni ef áframhald verður á fækkun lögreglumanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×