Innlent

ESB yfirlýsing gæti hjálpað efnahagslegum stöðugleika

Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingar.
Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingar.

Yfirlýsing um að Ísland stefndi að aðild í Evrópusambandinu gæti umheiminum fyrirheit um hver stefna landsins væri á næstu tíu árum og gæti hjálpað til að koma efnahagslegum stöðuleika á. Þetta sagði Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar í Silfri Egils í dag. Hann benti á að þegar önnurlönd sem sótt hefðu um aðild að sambandinu hefðu gefið út yfirlýsingu þess efnis, hefði það haft áhrif í þá veru. Steingrímur J. Sigfússon þingmaður VG var þó ekki sammála Árna og benti á að sú hefði ekki verið raunin í Eistlandi.

Árni sagði nauðsynlegt að við settum okkur markmið, annars héldi óstöðugleikinn áfram. Mikilvægt væri þó að missa umræðuna ekki út í að tala niður um þann grunn sem við hefðum. Íslenskt samfélag mætti ekki við því að stórir bankar yrðu fyrir áfalli. Steingrímur sagðist telja að lítil stemning værir fyrir því að bjarga bönkunum eða yfirmönnum þeirra.

Hann sagði að Ísland væri eitt skuldugasta vestræna hagkerfið þó ríkissjóður væri sterkur. Hann tók undir að umræðan um efnahagslegan vanda þjóðarinnar hefði sálrænar afleiðingar.

Einar K. Guðfinnsson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra var einnig sammála því og benti á að íslenskar fjármálastofnanir stæðust álagsprófanir og mikilvægt væri að koma því til skila bæði til almennings og út fyrir landsteinana. Skuldatryggingarálagið væri ekki í samræmi við forsendur.

Árni gagnrýndi fyrirætlanir um að reisa álver í Helguvík og sagði að stýrivextir myndu þá ekki nást niður fyrir 7-8 prósent á næstu árum. Ekki dygði að horfa einungis til skammtímahagsmuni í þeim efnum. Slíkt ýtti undir vantrú á grundvallarforsendum sem íslensk efnahagsstefna byggði á.

Einar sagði að mikilvægt væri að vera með áform um aðgerðir og verkefni. Ekki væri þó pláss fyrir tvær stóriðjuframkvæmdir í einu.

Steingrímur sagði fara um sig hroll við tilhugsunina um að stefna í stórframkvæmdir nú það væri áskrift á áframhaldandi viðskiptahalla; „Það verður að renna af okkur Egill," sagði hann í þættinum. Hann bætti við að umtalsverð mistök hefðu verið gerð í hagstjórn sem þyrfti að leiðrétta; „Það verður erfitt, en það tekst."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×