Innlent

Stýrimaður smyglskútunnar dæmdur fyrir fleiri brot

Bíll þeirrar gerðar sem Guðbjarni reynsluók í rúma viku.
Bíll þeirrar gerðar sem Guðbjarni reynsluók í rúma viku.
Guðbjarni Traustason sem dæmdur var nú nýverið í Pólstjörnumálinu svokallaða til sjö og hálfs árs fangelsisvistar, var í Héraðsdómi Reykjaness dæmdur fyrir brot á umferðarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og fyrir nytjastuld. Guðbjarna var hins vegar ekki gerð refsing í málinu þar sem um var að ræða hegningarauka við Pólstjörnudóminn.

Guðbjarni var ákærður fyrir að hafa haft í vörslu sinni 0,45 grömm af kókaíni fyrir utan skemmtistaðinn Nasa við Austurvöll. Hann var einnig ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið próflaus á Sandgerðisvegi á allt að 131 kílómetra hraða og fyrir að hafa ekið próflaus í Sandgerði rúmum mánuði síðar. Þá var Guðbjarni fundinn sekur um að hafa fengið Renault Traffic sendibifreið til reynsluaksturs hjá B&L á Grjóthálsi. Guðbjarni skilaði bílnum hins vegar aldrei og fannst bifreiðin mannlaus á Garðskagavegi tæplega viku síðar.

Guðbjarni játaði brot sín skýlaust fyrir dómi og var það mat dómara að brotin hefðu ekki orðið til þyngingar í Pólstjörnudómnum. Honum var því ekki gerð sérstök refsing í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×