Erlent

Mannréttindabrot að vísa mönnum úr landi fyrir að skipuleggja morð

Sighvatur Jónsson í Danmörku skrifar

Formaður fjölmenningarsamtaka í Danmörku segir það brot á mannréttindum að vísa tveimur mönnum úr landi, vegna gruns um skipulagningu morðs á teiknara Jótlandspóstsins.

Dönsku blöðin birta Múhameðsskopmyndina í dag og Nyhedsavisen skrifar um SMS-skeyti fyrir um mánuði þar sem teiknarinn var sagður hafa verið myrtur.

Daginn eftir handtökurnar er lítt notuð og nýleg lagagrein útlendingalaga, sem gefur ráðherrum heimild til að vísa erlendum ríkisborgurum úr landi, mikið rædd í Danmörku.

Formaður fjölmenningarsamtaka í Gellerup-hverfinu í Árósum, þar sem handtökurnar áttu sér stað í gær, tekur undir þessa gagnrýni á dönsku útlendingalögin.

„Mér finnst það ekki vera lögfræðilega rétt að fólk sé ekki leitt fyrir framan dómara og geti þannig verið refsað án réttarlegrar málsmeðferðar. Það stríðir gegn mannréttindum og lýðræðislegu réttarkerfi, " segir Rahib Azad-Ahmad, formaður Fjölmenningarsamtakanna.

Danska leyniþjónustan segir höfuðmarkmiðið hafa verið að hindra morð. „Þegar valið er að grípa til aðgerða snemma af öryggisástæðum þá er það stundum svo að sönnunargögn eru ekki næg til reksturs sakamáls," segir Jaco Shcraf, yfirmaður dönsku leyniþjónustunnar.

Annar möguleiki er sá að leyniþjónustan forðist dómsmál, svo hvorki þurfi að upplýsa um heimildarmenn né starfsaðferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×