Innlent

Sex sakborningar ákærðir í Fáskrúðsfjarðarmálinu

Efnin voru flutt til Fáskrúðsfjarðar.
Efnin voru flutt til Fáskrúðsfjarðar.
Alvar Óskarsson, Arnar Gústafsson, Bjarni Hrafnkelsson, Einar Jökull Einarsson, Guðbjarni Traustason og Marínó Einar Árnason hafa allir verið ákærðir fyrir aðild að Fáskrúðsfjarðarmálinu.

Ákæran hefur verið birt sakborningum. Þeir eru ákærðir fyrir að hafa staðið saman að innflutningi á samtals 23,5 kg af amfetamíni, 13,9 kg af e-töflu dufti og 1746 e- töflum til Íslands, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Fíkniefnin voru flutt inn með skútu sem lagði að bryggju í Fáskrúðsfjarðarhöfn að morgni fimmtudagsins 20. september. Lögregla fann fíkniefnin við leit í skútunni og haldlagði þau sama dag.

Einar Jökull er sakaður um að hafa skipulagt innflutning fíkniefnanna og skipt verkum með meðákærðu. Hann hafi fengið þá til að taka að sér að búa um efnin, sem og flutning, móttöku og vörslur þeirra. Hann er sagður hafa afhent þeim Alvari og Guðbjarna fíkniefnin í Hanstholm, Danmörku í byrjun september, í því skyni að þeir flyttu þau til Fáskrúðsfjarðar með skútunni sem hann hafði tekið á leigu í Noregi.

Bjarni er sagður hafa búið um fíkniefnin, hinn 20. ágúst í íbúð í Kaupmannahöfn til að hægt væri að flytja þau til Íslands. Hann er sagður hafa keypt í byggingavöruverslun ytra, vörur sem notaðar hafi verið til verksins.

Alvar og Guðbjarni eru sakaðir um að hafa tekið við fíkniefnunum í Hanstholm í byrjun september frá Einari Jökli, sett þau um borð í skútuna og siglt henni til Fáskrúðsfjarðar með viðkomu á Hjaltlandseyjum og Færeyjum. Þar hafi þeir ætlað að afhenda Marínó Einari fíkniefnin.

Marínó er sakaður um að hafa tekið að sér að veita fíkniefnunum móttöku á Fáskrúðsfirði frá Alvari og Guðbjarna og afhent Arnari þau til vörslu. Þá hafi ákærði ætlað að afhenda Guðbjarna og Alvari vistir og olíu til þess að þeir gætu siglt skútunni frá Íslandi að lokinni afhendingu efnanna. Marínó var með efnin í bifreið sinni er hann var handtekinn á Fáskrúðsfirði.

Arnar er sakaður um að hafa tekið að sér að taka á móti fíkniefnunum frá Marínó Einari til vörslu. Hann er sagður hafa ætlað sér að fela þau í sumarbústaðarlandi í Rangárvallarsýslu.

Málið verður þingfest á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×