Erlent

Störe slapp með skrekkinn - Tveir Norðmenn særðust

Tveir Norðmenn í fylgdarliði norska utanríkisráðherrans særðust í sprengjuárás á hótel í Kabúl í Afganistan nú síðdegis. Ráðherrann var staddur á hótelinu þegar ráðist var á það en hann er óskaddaður.

Jonas Gahr Störe utanríkisráðherra Noregs var á Serena hótelinu þegar fjórir menn réðust til inngöngu með handsprengjum og byssuskothríð. Þeir komust framhjá vörðum með því að fella alls fjóra menn, fóru inn á hótellóðina og þar sprengdu tveir þeirra sig í loft upp.

Blaðamaður norska Dagblaðsins og starfsmaður norska utanríkisráðuneytisins særðust báðir alvarlega. Þeir voru fluttir á tékkneskt hersjúkrahús á Kabúl flugvelli og nú rétt fyrir fréttir var Störe utanríkisráðherra á leið til þeirra. Farið var með Störe niður í kjallara hótelsins á meðan beðið var eftir hersveitum á staðinn. Bandarískir hermenn umkringdu hótelið.

Talibanar sendu í fyrra 140 sjálfsvígssprengjumenn til árása í Afganistan. Norðmenn eru með fimm hundruð hermenn í Afganistan. Talsmaður íslensku friðargæslunnar segir að engir Íslendingar hafi verið á hótelinu þegar árásin var gerð. Alls eru þrettán Íslendingar á vegum friðargæslunnar í störfum hjá Atlantshafsbandalaginu í Afganistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×