Erlent

Börn í Kenía snúa aftur í skóla

Börn í Kenía fóru aftur í skóla eftir einnar viku hlé þrátt fyrir upplausnarástand í landinu.

Skólagöngu barna eftir jólafrí var frestað um viku en í morgun voru þau aftur send í skóla. Nú er alls talið að rúmlega sex hundruð manns hafi látið lífið í róstum, sumir í átökum ættbálka og glæpasamtaka en einhverjir hafa orðið fyrir byssukúlum lögreglu. Alls hafa um tvö hundruð þúsund manns flúið land.

Á morgun verður þing landsins kallað saman. Stjórnarandstæðingar segjast munu setjast þar sem stjórnarþingmenn sitja alla jafna, enda hafi þeir unnið kosningarnar 27. desember. Þeir hafa boðað til þriggja daga mótmæla frá og með miðvikudeginum. Lögregla hefur bannað mannsöfnuð.

Á morgun kemur nefnd virtra Afríkumanna, með Kofi Annan fyrrum framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í broddi fylkingar, til þess að reyna að miðla málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×