Erlent

Lögmaður Vasamannsins biðst afsökunar á orðum sínum

Maðurinn var handtekinn í Björgvin í Noregi.
Maðurinn var handtekinn í Björgvin í Noregi. MYND/Björgólfur

Lögmaður hins svokallaða Vasamanns í Noregi hefur beðist afsökunar á þeim orðum sínum að fórnarlömb mannsins hefðu að líkindum hefðu að líkindum ekki hlotið alvarlegan skaða.

Vasamaðurinn var handtekinn fyrir helgi en talið er að hann hafi brotið gegn á fjórða hundrað drengja í Noregi með því að ginna þá til þess að stinga hönd sinni ofan í buxnavasa hans. Hafði hann klippt gat á vasann þannig að drengirnir snertu kynfæri hans.

Orð lögfræðingsins, Erlings Staff, ollu mikilli reiði í Noregi og hefur Staff því beðist afsökunar á því að hafa sært fórnarlömb Vasamannsins. „En ég bið börnin aðeins afsökunar, ekki foreldra þeirra, frændur og frænkur eða aðra aðstandendur. Þau hafa ásamt minni kynslóð búið til þetta kerfi," segir Staff.

Vasamannsins hafði verið leitað í um þrjá áratugi en það var út frá rannsókn á DNA-sýnum sem hinn 55 ára gamli Norðmaður var handtekinn fyrir helgi.

Lögregla rannsakar nú einnig hvort maðurinn hafi einnig brotið af sér í útlöndum. Maðurinn hefur neitað að tjá sig nokkuð við lögreglu en leiða átti hann fyrir dómara nú um hádegisbil þar sem fara átti fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×