Erlent

Allt bendir til sigurs Saakishvili

Forsetinn lýsti yfir sigri þegar niðurstöður útgönguspáa voru birtar.
Forsetinn lýsti yfir sigri þegar niðurstöður útgönguspáa voru birtar. MYND/AFP
Þúsundir mótmæltu úrslitum forsetakosninganna í Tblisi höfuðborg Georgíu í dag sem benda til að Mikhail Saakashvili forseti sitji annað kjörtímabil í embætti. Urður Gunnarsdóttir talsmaður Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu segir vankanta á kosningunum helst snúast um ójafna aðstöðu frambjóðenda fyrir kosningar.

Samkvæmt nýjustu tölum forsetakosninganna í Georgíu þegar búið er að telja fjórðung atkvæða lítur út fyrir að sigurvegarinn Mikhail Saakashvili forseti þurfi að mæta helsta keppinaut sínum í öðrum kosningum eftir hálfan mánuð þar sem mjótt er á mununum.

Eftir að útgönguspár voru kynntar í gær brutust út mótmæli stjórnarandstæðinga sem segja að úrslitunum hafi verið hagrætt forsetanum í vil. Skýrsla Öryggis- og samvinnustofnunnar Evrópu sem birt var í dag segir að í meginatriðum hafi kosningarnar farið fram samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Ekki hafi verið um kosningasvindl að ræða, en vankantar hafi þó verið á framkvæmdinni.

Urður Gunnarsdóttir talsmaður mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu ÖSE er í Georgíu ásamt 400 manns á vegum stofnunarinnar sem fylgdust með framkvæmd kosninganna. Hún segir að of mikill trðningur hafi verið á kjörstöðum, framkvæmdin hafi ekki gengið nógu fljótt fyrir sig og úrslit taki of langan tíma að berast. Þá séu andstæðingar Saakashvili óánægðir ekki síst vegna þess að hann hafi fengið mun betri aðgang að fjölmiðlum en aðrir frambjóðendur fyrir kosningarnar og fólki hafi verið hótað brottrekstri ef það myndi ekki kjósa hann.

Hún tekur sem dæmi að Saakashvili hafi fengið aðgang að stóru leikhúsi fyirr framboðsfund, en þegar annar frambjóðandi óskaði eftir því var honum neitað. Slíkt þyki ÖSE ekki eðlilegt. Þá hafi hann haldið hálftíma ræðu á miðnætti á gamlárskvöld en aðrir frambjóðendur höfðu ekki sama aðgang.

Auk þess séu lög í landinu um að forseti þurfi að segja af sér embætti fari hann í framboð, þess vegna eigi hann að vera jafn öðrum frambjóðendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×