Erlent

Efla varðveislu dýra- og plöntutegunda á Norðurlöndum

Íslensku landnámshænsnin eru meðal þeirra dýrategunda sem eru í útrýmingarhættu.
Íslensku landnámshænsnin eru meðal þeirra dýrategunda sem eru í útrýmingarhættu.

Efla á norrænt samstarf um erfðaauðlindir. Frá áramótum verða norrænar stofnanir sem áður hafa sinnt þessu starfi sameinaðar í eina stofnun - Norrænu erfðaauðlindastofnunina eða NordGen.

Greint er frá þessu á heimasíðu Norðurlandaráðs. Þar segir að NordGen muni sameina Norræna genabankann fyrir húsdýr og Fræ- og plöntunefnd norrænnar skógræktar. Í dag eru tugir tegunda, ekki síst húsdýra, í útrýmingarhættu á Norðurlöndum og meðal þeirra er íslenska landnámshænan.

Eitt af verkefnum NordGen verður að sjá til þess að erfðafræðilegur fjölbreytileika húsdýra haldist óbreyttur. Einnig mun NordGen vinna að því að viðhalda erfðaauðlindum í skógum með það að markmiði að viðhalda miklum fjölbreytileika trjáa.

Aðgangur að erfðaauðlindum er forsenda þess að aðlaga megi gróður og dýr að breyttum vaxtarskilyrðum, loftslagsbreytingum og nýjum sjúkdómum sem upp kunna að koma. NordGen heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og er til húsa í Alnarp í Suður-Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×