Erlent

Íslendingur í Kenía segir engan óhultan

„Lögreglan í Kenía skýtur almenna borgara af handahófi og enginn er óhultur," segir Þórunn Helgadóttir, sem rekur barnaheimili ABC barnahjálpar í Naíróbí í Kenía. Þórunn ferðaðist frá Tansaníu í gær til Naíróbi í Kenía með 500 kg af mat fyrir barnaheimilið.

Hún segir ástandið fara sífellt versnandi en meira en 300 hafa látist og að minnsta kosti 70 þúsund flúið heimili sín víða um landið frá því að úrslit kosninga í landinu voru tilkynnt á sunnudag. Kibaki forseti er sakaður um svindl í kosningunum en Þórunn segir að Kibaki neiti að funda með stjórnarandstöðunni. „Hann ætlar bara að bíða þetta af sér," sagði Þórunn.

ABC hefur hjálpað um 350 börnum um skólagöngu, fæði og læknishjálp undanfarið ár. Þar af búa um 200 börn á ABC heimilinu en um 150 börn búa í fátækrahverfum í Naíróbi. Starfsfólk ABC hefur verið að fara með mat í fátækrahverfinu og vitja heimila barnanna. Þórunn segir að starfsfólk sitt sé i mikilli hættu og hún hafi oft þurft að leysa það út úr fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×