Erlent

Obama með forskot á Edwards - Clinton að dragast aftur úr

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun mun Barack Obama sigra í forkosningum demókrata í Iowa í kvöld.
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun mun Barack Obama sigra í forkosningum demókrata í Iowa í kvöld. MYND/AP

Barack Obama hefur fjögurra prósentustiga forskot á John Edwards fyrir forkosningar demókrata í Iowa í Bandaríkjunum í kvöld samkvæmt skoðanakönnun Reuters og fleiri aðila sem birt var í dag. Hillary Clinton er hins vegar sjö prósentustigum á eftir Obama.

Segja má að baráttan um Hvíta húsið hefjist formlega í kvöld með forkosningunum í Iowa. Þær fyrstu af fjölmörgum í ríkjum Bandaríkjanna þar sem demókratar og repúblikanar velja sér forsetaefni.

Samkvæmt könnun Reuters, C-SPAN og Zogby nýtur Barak Obama 31 prósents stuðnings meðal demókrata, John Edwards er með 27 prósent og Hillary Clinton 24 prósent. Engu að síður er talið að mjótt verði á mununum í forkosningunum í kvöld.

Hjá repúblikönum hefur Mike Huckabee aukið forskot sitt á Mitt Romney og nýtur sá fyrrnefndi stuðnings 31 prósents repúblikana en Romney 25 prósenta. Fyrrverandi öldungardeildarþingmaðurinn og leikarinn Fred Thompson er svo í þriðja sæti í Iowa með 11 prósenta fylgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×