Erlent

Gerviaugu og börn gleymast á hótelherbergjum

MYND/Getty Images

Krukka með ösku, gerviauga og lítið barn eru meðal þess sem gleymdist á hótelum Travelodge keðjunnar á síðasta ári. Ýmis happatákn, borgarstjórahálsmen og kettlingur voru einnig meðal þess sem fannst á herbergjum síðustu 12 mánuði.

Þá uppgötvaðist ferðataska full af demantsskartgripum, gullhálsmen upp á 1,5 milljónir króna og bíllyklar af Bentley bíl, allt skilið eftir af gestum.

Meðal hluta sem þykir furðulegt að fólk gleymi var sem dæmi módelþyrla 2x2 metrar að stærð. Þá kom eigandi búddalíkneskis alla leið til baka frá Dubai til að sækja það, þar sem hann fann fyrir mikilli óheppni eftir að hann gleymdi því.

Gervitennur og gervilimir gleymast líka á hótelherbergjum eins og kynlífsleikföng. Þá segir hótelkeðjan aukningu á raftækjum og tölvuleikjum sem verða eftir á hótelum.

Guy Parsons rekstrarstjóri Travelodge keðjunnar sagði að munirnir sem gleymist á hótelinu undirstriki fjölbreytileika gestanna.

"Hvort sem gestir eru í stuttu borgarstoppi eða langri helgardvöl á hótelum okkar í sveitinni, geta hlutir sem þeir skilja eftir sagt ótal sögur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×