Erlent

Yfirmaður stofnunar braut reykingabann

MYND/Getty Images

Þegar Antonio Nunes fékk sér vindil í nýárspartý í Portúgal, virðist hann ekki hafa áttað sig á því að hann var að brjóta gegn lögum sem stofnun á hans vegum á að framfylgja.

Mynd náðist af Nunes, sem er forseti portúgalska matvælaeftirlitsins, þar sem hann púaði vindil í spilavíti í úthverfi Lissabon eftir að lögin tóku gildi. Hann sagði fjölmiðlum að hann hefði ekki vitað að lögin næðu til spilavíta líka, en bannað er að reykja á kaffihúsum, börum og veitingastöðum.

"Við þurfum að skoða lögin betur," sagði hann portúgölsku dagblaði.

Lögin sem tóku gildi á nýársdag eru ekki eins ströng og svipuð lög annars staðar í Evrópu, en heilbrigðisráðuneytið staðfestir að spilavíti séu meðal staða sem ekki megi reykja á.

Barir og veitingastaðir sem eru minna en 100 fermetrar að stærð geta áfram leyft reykingar sé loftræsting nægilega góð.

Lögin yfir opinberar byggingar eins og skrifstofur, verslunarkjarna og skóla eru strangari, en leyfa sérstök reykingaherbergi séu þau nægilega vel merkt og loftræst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×