Erlent

Skotið á lögreglu með flugeldum í bæ í Danmörku

Ungmenni í Kokkendal hafa skotið flugeldum í allt aðrar áttir en upp í loftið.
Ungmenni í Kokkendal hafa skotið flugeldum í allt aðrar áttir en upp í loftið. MYND/Vilhelm

Kalla þurfti til mikinn fjölda lögreglumanna vegna óeirða í bænum Kokkendal á Norður-Sjálandi yfir áramótin. Skotið var á lögregluna með flugeldum og mikil skemmdarverk voru unnin á verslunum í bænum bæði á gamlárskvöld og nýársnótt.

Það var hópur um tuttugu ungmenna sem stóð að þessum óeirðum. Þær hófust á gamlársdagskvöld og blossuðu svo aftur upp í nótt af auknum krafti við Holmegaardscentret í Kokkendal. Danskir fjölmiðlar segja að nánast stríðsástand hafi ríkt í bænum þessar tvær nætur.

Í nótt varð lögreglan að draga sig til baka frá svæðinu þar sem hún var ekki nægilega vel mönnuð til að ná stjórn á ástandinu. Þá lágu lögreglumennirnir undir stöðugum árásum frá ungmennunum sem skutu á lögregluna með flugeldum og köstuðu kínverjum að þeim. Jafnframt voru útihurðir verslana brotnar upp og inn í þær kastað flugeldum.

Lögreglan kallaði eftir auknum liðstyrk og brátt voru tíu lögreglusveitir í óeirðabúningum og með hunda komnar á svæðið. Jafnframt þurfti að kalla til sprengjusveit lögreglunnar eftir að risastór flugeldakaka fannst í kjallara einnar verslunarinnar. Er liðstyrkurinn kom á svæðið flúðu ungmennin og ekki kom til átaka. Hinsvegar tókst lögreglunni ekki að handtaka neinn af þeim sem stóðu fyrir þessum óeirðum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×