Erlent

Hugmyndir um þjóðstjórn eða nýjar kosningar í Kenía

Vel fór á með þeim Kibaki og Tutu á fundi þeirra í morgun.
Vel fór á með þeim Kibaki og Tutu á fundi þeirra í morgun. MYND/AP

Mwai Kibaki, forseti Kenía, sagði eftir fund með Desmond Tutu erkibiskupi frá Suður-Afríku að hann væri reiðubúinn að ræða hugmyndir um þjóðstjórn.

Forsetinn ræddi einnig við Raila Odinga, leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Hann heldur því fram að forsetinn hafi haft rangt við í nýafstöðnum kosningum.

Einn af talsmönnum stjórnarandstöðunnar í Kenía viðraði einnig þá hugmynd að efnt yrði til kosninga á ný í landinu til þess binda enda á blóðbaðið sem kostað hefur mörg hundruð manns lífið. Talsmaður Kibakis forseta útilokaði það ekki ef dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu.

Kyrrt hefur verið á götum Kenía í dag eftir ofbeldi undanfarinna daga. Ekkert varð af útifundi stjórnarandstæðinga, sem búið var að ákveða að halda í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×