Erlent

Engar sannanir fyrir aðild Rússa að morðinu á Litvinenko

Alexander Litvinenko lést á sjúkrahúsi í Lundúnum síðla árs 2006 eftir að honum var byrlað geislavirkt efni.
Alexander Litvinenko lést á sjúkrahúsi í Lundúnum síðla árs 2006 eftir að honum var byrlað geislavirkt efni. MYND/AP

Ríkissaksóknari í Rússlandi segir engar sannanir hafa komið fram fyrir því að þarlend leyniþjónusta hafi staðið á bak við morðið á njósnaranum fyrrverandi, Alexander Litvinenko, eins og breska leyniþjónustan telji.

Saksóknarinn rannsakar morðið líkt og bresk stjórnvöld og sagði hann í dag að ekkert benti til þess að nokkur leyniþjónusta hefði komið að morðinu. Litvinenko var myrtur árið 2006 í London en hann var þekktur sem harður gagnrýnandi Vladímírs Pútíns, fyrrverandi forseta Rússlands . Morðið vakti heimsathygli þar sem hið geislavirka efni pólon 210 var notað til verknaðarins.

Greint var frá því á fréttavef BBC í dag að breska leyniþjónustan, MI5, teldi sig hafa sannanir fyrir því að rússnesk stjórnvöld hefðu lagt blessun sína yfir morðið áður en það var framið. Talsmaður Dímítrís Medvedevs, forseta Rússlands, neitaði að tjá sig um málið þegar eftir því var leitað á fundi átta helstu iðnríkja heims í Japan í dag.

Bresk stjórnvöld telja að Andrei Lugovoj, fyrrverandi liðsmaður KGB, hafi myrt Litvinenko og fóru fram á framsal hans vegna rannsóknar málsins. Því höfnuðu Rússar og kjölfarið kólnuðu mjög samskipti Rússa og Breta.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×