Erlent

Íbúar Napolíborgar eru að drukkna í sorpi

Íbúar Napolíborgar eru að drukkna í sorpi og hefur ríkisstjórn Ítalíu verið kölluð til neyðarfundar í dag vegna málsins. Engin sorphirða hefur verið í borginni undanfarnar tvær vikur.

Þótt reiði almennings í Napolí beinist fyrst og fremst að stjórnvöldum vita allir að mafían í borginni, hin illræmda Camorra, á höfuðsök á ástandinu. Mafían hefur lengi verið með puttana í sorphirðimálum Napolí og græðir háar upphæðir á þeim vettvangi á hverju ári. Mafían vill ekki breyta þessari gullkú sinni og hefur meðal annars komið í veg fyrir byggingu á nýjum sorpbrennslustöðvum.

Þar sem engin sorphirða er hafa margir borgarbúar brugðið á það ráð að brenna sjálfir sorp sitt. Af þeim sökum hefur slökkvilið borgarinnar átt fullt í fangi síðustu vikur við að slökkva elda sem breiðst hafa út í kjölfar sorpbrennslunnar.

Sorphirðumál í Napolí hafa verið í rusli, ef svo má að orði komast, undanfarin 15 ár. Stjórnvöld hafa reynt hvað þau geta til að koma þessum málum í eðlilegt horf en glíma þeirra við mafíuna hefur engan árangur borið. Nú hafa borgarbúar fengið sig fullsadda af ástandinu og krefjast raunhæfra aðgerða frá stjórnvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×