Reynir Traustason, ritstjóri DV, biðst afsökunar á fyrstu viðbrögðum sínum vegna yfirlýsingar Jóns Bjarka Magnússonar, fyrrum blaðamanns DV, í gær.
,,Vandasamt er að bregðast við í slíkum aðstæðum og ég harma að fyrstu viðbrögð mín voru ónákvæm enda mundi ég ekki samtal mitt við starfsmanninn frá orði til orðs. Ég bið samstarfsmenn mína og alla hlutaðeigandi afsökunar en tel að sú yfirsjón sé ekki af þeirri stærðargráðu að réttlæti uppsögn af minni hálfu. Raunar hefur stjórn og
framkvæmdastjórn Birtíngs lýst því yfir við mig að ég njóti fulls trausts til
áframhaldandi starfa sem ritstjóri DV," segir Reynir í tilkynningu.
Kastljós birti í gær upptöku af samtali Reynis og Jóns um hvers vegna frétt Jóns hafi ekki verið birt í blaðinu. Reynir segir í upptökunni að stórir aðilar hafi komið í veg fyrir birtingu fréttarinnar á krafti fjármagns. Ritstjórar DV, feðgarnir Reynir og Jón Trausti Reynisson, sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þeir segja að það rangt að stórir aðilir hafi komið í veg fyrir að fréttin yrði birt.
,,Tveggja manna trúnaðarsamtal er varhugaverð heimild. Í slíku samtali tala menn gjarnan opinskátt og segja jafnvel meira en þeir meina eða vilja sagt hafa. Í þessu einkasamtali við starfsmanninn viðhafði ég óvarleg ummæli um nafngreinda einstaklinga í hita augnabliksins. Ég harma framsetningu þeirra og bið viðkomandi afsökunar. Ég fékk ekki við neitt ráðið. Þessi ummæli eru því ekki aðeins meiðandi fyrir viðkomandi heldur einnig fyrir mig persónulega. Hver og einn á rétt á leiðréttingu orða sinna. Kastljós virti slík sjónarmið að vettugi. Hér var því um að
ræða alvarlegt brot gegn persónufriðhelgi minni," segir Reynir.