Innlent

Makríll fer að teljast til nytjafiska við landið

Síldveiðiskipin fyrir austan land fá nú margfalt meira af makríl sem meðafla en nokkru sinni fyrr. Hann fer nú að teljast til nytjafiska hér við land og gæti orðið tilefni til enn einnar fiskveiðideilunnar við Norðmenn.

Ástæða þess er sú að Norðmenn eiga hvað stærstan hluta í fjölþjóðlegum makrílkvóta í Atlantshafi og hafa ítrekað hafnað beiðni Íslendinga um að fjá hlutdeild í kvótanum. Makrílveiðar okkar nú eru því utan kvóta, eða eins konar sjóræningjaveiðar, eins og við köllum það þegar aðrar þjóðir veiða utan sameiginlegs kvóta.

Makríllinn veiðist hins vegar innan íslensku fiskveiðilögsögunnar sem óneitanlega styrkir málstað Íslendinga. Eitt síldveiðiskipanna sem var á landleið í morgun með 1700 tonna farm, en þar af eru fimm hundruð til sex hundruð tonn makríll, eða um það bil þriðjungur.

Skip, sem ekki frysta afla um borð, landa honum til bræðslu eins og síldinni en makríll er mun verðmætari en síldin til manneldis. Hann er líka allt að tvöfalt stærri en síldin og allt að eitt kíló að þyngd. Mun meiri makríll virðist vera á síldarmiðunum núna en nokkru sinni fyrr og kunna sjómenn ekki skýringu á því.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.