Erlent

Hafa tvo liðsmenn Sea Shephard í haldi

Áströlsk stjórnvöld ætla að senda strandgæsluskip að japönsku hvalveiðiskipi í Suður Íshafinu, til að sækja þangað tvo liðsmenn Sea Shephard samtakanna sem áhöfn skipsins hefur í haldi.

Liðsmenn samtakanna - Ástrali og Breti - hafa verið í haldi í hvalveiðiskipinu í tvo sólahringa, eða frá því þeir ruddust þangað óboðnir um borð. Samtökin segja þá hafa hafa ætlað að afhenda bænaskjal en Japanir segja að þeir hafi skvett sýru úr flösku sem þeir höfðu með sér.

Íslendingar þekkja Sea Shepherd af umdeildum baráttuaðferðum. Í nóvember 1986 sökktu þau tveimur hvalveiðiskipum í Reykjavíkurhöfn og frömdu skemmdarverk á hvalstöðinni í Hvalfirði.

Mennirnir sem fóru um borð í hvalveiðiskipið voru tjóðraðir niður og vill áhöfnin skipta á mönnunum gegn þvi að Sea Shephard hætti að skipta sér af hvalveiðum, en það vilja samtökin ekki.

Utanríkisráðherra Ástrala tilkynnti í morgun að skip yrði sent til að sækja þá og koma þeim aftur um borð í skip Sea Shepherd, sem heitir í höfuðið á krókódílafangaranum látna - Steve Irwin. Ráðherrann sagði það aðeins hægt sem samvinnu japönsku áhafnarinnar og liðsmanna Sea Shepherd. Ástralar vilja að mennirnir verði látnir lausir hið fyrsta og það vilja stjórnvöld í Tokyo líka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×