Innlent

Greint frá samningi við IMF um leið og samkomulag liggur fyrir

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að greint verði frá samkomulagi stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) um aðgerðir í efnahagsmálum um leið og sjóðurinn hafi lagt blessun sína yfir lán til Íslands.

Stjórnarandstaðan kallaði eftir því í umræðum á Alþingi um stöðu efnahagsmála að skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins yrðu gerð opinber. Vildu stjórnandstæðingar taka þátt í stefnumótun í málinu. Þá var deilt um það hver bæri ábyrgð á hækkun stýrivaxta fyrr í vikunni.

Geir sagði fulltrúa ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa komist að niðurstöðu um efnahagsáætlun um að bregðast við núverandi aðstæðum. Á grundvelli slíkrar áætlunar væri sjóðurinn tilbúinn að lána fé. Sagði Geir að skjal um aðgerðir stjórnvalda og stöðu mála verða sent utan á morgun og það yrði birt um leið og hægt væri.

Benti Geir á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri stór og mikil stofnun og innan veggja hans giltu ákveðnar leikreglur. Hver og ein ríkisstjórn gæti ekki spilað út öllum upplýsingum sem henni hentaði. Þá hafnaði hann þeim fullyrðingum Ögmundar Jónassonar, þingflokksformanns Vinstri - grænna, um að samkomulagið við IMF væri leyniplagg. Það yrði birt um leið og samkomulag lægi fyrir.

Rangt að IMF vilji koma illu til leiðar hér á landi

Geir sagði að í samkomulaginu væri vikið að vaxtamálum og vísaði einnig til athugasemda Seðlabankans í morgun um það hver hefði átt hugmyndina að vaxtahækkunina. Ríkisstjórnin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefðu farið vel yfir málið og að viðræðunum hefði komið fulltrúi Seðlabankans. Hér væri því um þríhliða samstarf að ræða þótt það væru fyrst og fremst ríkisstjórnin of sjóðurinn sem hefðu unnið að honum.

Geir sagði enn fremur að vonandi yrði vaxtahækkunin skammtímaaðgerð og verið væri að búa gjaldeyrismarkaðinn þannig úr garði að krónan fengi verð. Þeir sem hefðu beðið um samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefðu vitað að til þessa gæti komið.

Þá sagði ráðhera það rangt að gefa sér að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri að koma illu til leiðar hér á landi og pína launþega eins og Vinstri - græn hefði haldið fram. Taldi hann að það myndi sannast í samstarfi við sjóðinn. Samstarfið yrði til tveggja ára og það myndi vonandi leiða til þess að Íslendingar væru komnir í gegnum mestu erfiðleikana og tekjur og kaupmáttur myndu hækka aftur. Til þess að þetta gæti gengið upp þyrfti að teyga beyskan bikar í upphafi í formi vaxtahækkunar.

Breytt staða í Rússaviðræðum

Um viðræður við Rússa sagði Geir að þeim væri ekki lokið eins og einhverjir héldu fram. Hitt væri rétt að staðan væri mjög breytt frá því að talað hefði verið við þá í upphafi. Staðan í Rússlandi væri breytt og okkar ástand væri allt annað en í sumar þegar byrjað hefði verið að tala við þá.

Umræður um stöðu efnahagsmála og samninginn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn standa enn á Alþingi og eru 20 þingmenn á mælendaskrá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×