Reggina styrkti stöðu sína örlítið í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er liðið gerði jafntefli gegn Cagliari á útivelli í dag, 1-1.
Emil Hallfreðsson sat allan leikinn á varamannabekk Reggina en þetta var fyrsti leikur nýs þjálfara liðsins sem var ráðinn nú í vikunni.
Reggina er sem fyrr í næstneðsta sæti deildarinnar en nú með þrettán stig.
Juventus minnkaði forskot Inter á toppi deildarinnar í sex stig er liðið vann 3-1 útisigur á Atalanta í dag. Alessandro Del Piero og Nicola Legrottaglie komu Juventus í 2-0 í fyrri hálfleik en Christian Vieri minnkaði muninnn í upphafi þess síðari. Amauri innsiglaði svo sigurinn undir lok leiksins.
Fiorentina kom sér upp í þriðja sæti deildarinnar með 1-0 sigri á Sampdoria eftir að Napoli tapaði óvænt fyrir Torino á útivelli. Napoli og AC Milan koma næst með 30 stig en AC Milan á leik til góða.
Roma gengur sem fyrr illa að koma sér í efri hluta deildarinnar en liðið tapaði í dag fyrir Catania, 3-2. Roma er í ellefta sæti deildarinnar með 23 stig.
Úrslit dagsins:
Atalanta - Juventus 1-3
Cagliari - Reggina 1-1
Catania - Roma 3-2
Chievo - Genoa 0-1
Lecce - Bologna 0-0
Sampdoria - Fiorentina 0-1
Torino - Napoli 1-0
Reggina krækti í stig
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
