Innlent

Höfuðpaurinn játaði brot sitt

Brotamenn í dómsal Ákærðu voru allir viðstaddir þingfestingu í máli þeirra í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
fréttablaðið/gva
Brotamenn í dómsal Ákærðu voru allir viðstaddir þingfestingu í máli þeirra í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. fréttablaðið/gva
Einar Jökull Einarsson, Kópavogsbúi á 28. aldursári, játaði í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær að hafa skipulagt innflutning á tæplega fjörutíu kílóum af verskmiðjuframleiddum fíkniefnum sem haldlögð voru í skútu við Fáskrúðsfjarðarhöfn hinn 20. september í fyrra.

Alvar Óskarsson, Guðbjarni Traustason, Bjarni Hrafnkelsson, Arnar Gústafsson og Marinó Einar Árnason, sem einnig eru ákærðir í málinu, játuðu einnig aðild að smygltilrauninni. Þeir neituðu því að hafa skipulagt innflutninginn og gerðu athugasemdir við magnið sem nefnt er í ákæru á grundvelli rannsóknar á efnunum. Efnin voru blaut þegar þau voru vigtuð en þurrkuð vigtuðust þau um þrjátíu prósentum léttari, tæplega þrjátíu kíló.

„Þetta var bara skyndiákvörðun,“ sagði Bjarni Hrafnkelsson, 36 ára Hafnfirðingur, sem ákærður er fyrir að hafa pakkað efnunum inn í Danmörku áður en Alvar og Guðbjarni sigldu efnunum til Íslands, með viðkomu á Hjaltlandseyjum og í Færeyjum. Hann sagðist hafa pakkað efnunum inn ásamt öðrum manni en ekki komið að skipulagningu innflutningsins að neinu öðru leyti.

Marinó Einar játaði einnig brot sitt að fullu. Hann er ákærður fyrir að hafa átt að taka við efnunum á Fáskrúðsfirði og koma þeim í hendur Arnars. Hann játti því að hafa samþykkt að geyma „pakka“ fyrir Einar Jökul á sumarbústaðalandi tengdaforeldra sinna í Rangárvallasýslu en sagðist ekki vera viss um hvað hefði átt að vera í pakkanum.

Aðalmeðferð í málinu fer fram 31. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×