Erlent

Farþegar og áhöfn létust í flugslysi í Kongó

Rannsóknarmenn á slysstað Antonov vélar sem fórst í Úganda árið 2005.
Rannsóknarmenn á slysstað Antonov vélar sem fórst í Úganda árið 2005.

Nú er ljóst að þeir 17 manns sem voru um borð í rússnesku fragtflugvélinni sem fórst í úthverfi Kinshasha í Kongó í dag eru látnir. Vélin lenti á fjölda kofa í Kingasani hverfi nálægt Ndjili alþjóðaflugvellinum. Óttast er um líf fjölda manns á jörðu niðri. Vélin var af gerðinni Antonov í eigu kongóska flugfélagsins Africa 1.

Slökkvilið átti í erfiðleikum með að komast að slysstaðnum innan um hreysin í hverfinu. Að minnsta kosti fjögur hús standa í ljósum logum auk flugvélarinnar.

Talsmaður Sameinuðu þjóðanna í Kongó sagði fjölda manns hafa látist í slysinu, en nákvæmar tölur um látna hafa ekki enn fengist.

Flugslys eru tíð í Kongó. árið 1996 létust að miinnsta kosti 350 manns þegar Antonov-32 vél brotlenti á mannmörgum markaði í miðborg Kinshasa.

Vélar í notkun í Kongó eru gamlar og vantar töluvert upp á viðhald þeirra. Þær eru þó oft eina leið til að koma fólki og vörum á milli staða í landinu sem er gríðarstórt og á hægum batavegi eftir borgarastríð sem geisaði frá árinu 1998 til 2003.

Átta létust í flugslysi í september þegar fragtvél lenti utan flubrautar í bænum Goma.

Kongó er á stærð við vesturhluta Evrópu en hefur einungis nokkur hundruð kílómetra malbikaðra vega.

Á síðasta ári var staða flugmála í landinu talin "til skammar" af Alþjóða flugmálasamtökunum.

Africa 1 er á svörtum lista flugfélaga í Evrópusambandinu. Öll flugfélög sem uppfylla staðla kongóskra flugmálayfirvalda, nema Hewa Bora flugvélagið, eru bönnuð af sambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×